29.4.09

Að vilja vera eða ekki vera

Verð að segja ykkur aðeins frá skrautlegum karakterum sem ég hef kynnst á spítalanum...

Boston Medical Center var áður þekktur sem Boston City Hospital og sinnti öllu fátæka fólkinu í Boston. Þetta hefur að mörgu leyti enn haldist í því fari - að vísu er alltaf farið með sjúklinga á þá bráðamóttöku sem er næst en einhvern veginn þá leitar fátæka fólkið mikið hingað. Og það er beinlínis ástæðan fyrir því að sumir vilja fara í sérnám á BMC. Theresa vinkona hefur t.d. ákveðið að hún ætlar að sérmennta sig í brjóstakrabbameini í spænskumælandi fátækum konum og þá er BMC góður staður!
Hef nú verið á almennri deild í nærri 8 vikur og hef kynnst ýmsu skondnu. Vorum t.d. með karl um daginn sem var lagður inn drukkinn (sem gerist nú yfirleitt ekki en það var einhver spurning hvort hefði liðið yfir hann og því þótti betra að fylgjast aðeins með honum). Svo hverfur karlinn eitthvað út af stofunni sinni og dúkkar svo aftur upp. Sérfræðingurinn fer eitthvað að kíkja á hann og finnur vodkapela í öðrum sokknum og karlinn svo drukkinn að ekki er hægt að útskrifa hann! Daginn eftir leit hann vel út á stofugangi, hafði runnið af honum og svo átti að útskrifa hann eftir stofugang um hádegisbil. Heyrðu, þá var karlinn aftur orðinn svo drukkinn að hann stóð ekki í lappirnar!!! Svo 3. daginn hafði runnið af honum og ég var með pappírana tilbúna kl. 08 svo hægt væri að senda hann út áður en hann kæmist í áfengi. Nema hvað að þá fundust skórnir hans ekki og það tók 3 klst. að hafa uppi á skóm handa karlgreyinu - sem betur fer tókst okkur að halda honum inni á herbergi þangað til og loks komum við honum út!
Svo hef ég nú í þrígang verið með stelpu sem kemur inn til okkar úr fangelsi eftir að hafa innbyrt alls konar hluti. Hún hefur m.a. étið skeið, plastgaffal, klósettpappír og stærðarbita úr plastkassa. Kemur í fylgd fangavarða sem reyna að passa hvað hún borðar þarna í fangelsinu en henni tekst iðulega að troða ofan í sig einhverju öðru en mat. Og kemur þá til okkar í magaspeglun svo hægt sé að ná í þessa hluti!
Annars er ég víst með met í því hversu margir sjúklingar strjúka frá okkur þennan mánuðinn. Einhver minna sjúklinga hefur annað hvort stungið af af deildinni eða útskrifað sig gegn læknisráði nánast hvern einasta dag sl. 2 vikur. Ég held það sé íslenski hreimurinn - hann hljómar svolítið harkalega - held þessir sjúklingar séu barasta hræddir við mig!
Mér fannst samt verst þegar kallinn með skorpulifur og varicublæðingar (blæðingar í vélinda) með hemoglobin upp á 60 heimtaði að fara heim að drekka um daginn! En það var ekki hægt að sannfæra hann um að vera hjá okkur - hann sagðist bara myndu koma aftur ef hann myndi slappast eitthvað...

21.4.09

Bara í Bandaríkjunum

Aðalfréttin hér í Boston þessa dagana er "the Craigs list killer" - gaur sem hitti vændiskonur á hinum fínustu hótelum hér í Boston og rændi svo af þeim pening. Nema hvað að hann skaut líka eina þeirra til bana.
Og svo kom í ljós í gær að hann er 2. árs læknanemi við BU (Boston University) ! - sem er tengt BMC (a.k.a. Boston University Medical Center)!!!
Fréttamenn stóðu í röðum fyrir utan spítalann í dag og reyndu að ná tali af hvaða starfsmanni sem labbaði framhjá þeim. Er viss um að fréttin hafi verið í gangi allan daginn á þessum fréttastöðvum hér - örugglega búið að greina þetta í tætlur, finna familíuna, sálgreina gaurinn og tala við vinina - var hann efnilegur læknir? Eða sýndi hann merki um psychopatha-persónuleikahegðun? Borðaði hann Cocoa Puffs? O.s.frv. o.s.frv.
Bara í Bandaríkjunum...

16.4.09

Mús?

Ok, þetta var pínu scary....
Var rosalega bissí í vinnunni í dag. Fengum 5 nýja sjúklinga þegar við mættum kl 07 í morgun, komu allir upp á deild milli 5 og 6 og því náði næturvaktin ekki að kíkja almennilega á þá. Vorum því með 13 sjúklinga í morgun, gengum stofugang + skoðuðum þessa 5 nýju. Cointerninn minn var í fríi svo það var extramikið að gera. Deildarlæknirinn svo í göngudeild eftir hádegi og ég að útskrifa 7 sjúklinga, gera 5 nýja sjúrnala + hugsa um karlmann með hratt vaxandi graftarpoll í vinstri nára - jamms, brjálað að gera.
Og svo, eftir 13 tíma vinnu, erum við deildarlæknirinn á röntgen að skoða CT niðrá röntgen af náranum - og ég sé eitthvað kvikindi hlaupa yfir gólfið.... mús? kakkalakki?... veit ekki, en ég stökk ekki upp og elti! Og enginn annar sá - það var scary... annað hvort var fólk svona upptekið af CT skanninu eða ég bara búin að vera of lengi í vinnunni!?!
Hef aldrei séð kvikindi á BMC en mér er minnistætt atvik í New Orleans á þvagfæraskurðstofunni á Charity spítalanum - kakkalakki hljóp þar yfir gólf og einn læknaneminn stappaði hann í klessu með hælnum! Og engum datt í hug að taka upp klessuna...

15.4.09

Líður að lokum fyrsta árs...

Nú er intern árið mitt senn á enda og ég er í huganum farin að gera árið svolítið upp.

Þetta hefur verið gott ár. Ekki jafnerfitt og ég bjóst við. Það er alltaf talað um að í USA sé endalaus vinna og vissulega er hún meiri en heima - en langt í frá óyfirstíganleg.
Hér eru læknar á þessu stigi námsins svo rosalega dediceraðir, það er ætlast til að við séum "all over it", þ.e. með allar upplýsingar á hreinu um okkar sjúklinga á stofugangi og það hentar mér afskaplega vel að læra í umhverfi þar sem nákvæmni er í fyrirrúmi höfð (þar sem ég er svona nett obsessív...).
Hvað varðar vinnutíma þá er erfitt að henda reiður á nákvæmum tölum því þetta er mismunandi eftir rotationum. Eitt er víst að við mætum kl. 7 á morgnana og á venjulegum degi þegar ekki er verið að leggja inn þá getur maður búist við því að fara kl. 17, svona að meðaltali. En fyrr ef maður er búin með alla sína vinnu - og ef manni tekst að útskrifa alla sína sjúklinga þá þarf maður alls ekki að mæta! Hefur gerst tvisvar hjá mér (heitir að "win the game"), í bæði skiptin var ég reyndar á vakt um kvöldið svo þetta var ekki algjör frídagur!
Hef séð ýmislegt hér á BMC sem ég sá lítið af heima - dæmi:
- sickle cell anemia/crisis - erum með svoleiðis sjúklinga hjá okkur í hverri viku, hafði barasta aldrei séð sjúkling í sickle cell crisis fyrr en ég kom hingað!
- HIV - mikið af HIV smituðum sjúklingum hér sem eru á götunni og því ekki á HAART og koma inn með AIDS og opportunistiskar sýkingar
- lifrarsjúkdómar - hep B/hep c, skorpulifur, HCC - þetta sá maður svo lítið af heima, binge drinking fer tvímælalaust betur með lifrina...
- pulmonary hypertension - á BMC er einn helsti expert heims í lungnaháþrýstingi og við sjáum því óvenjumikið af þessu hér
- amyloidosis - aftur, BMC er með eitt besta center USA í amyloidosu
- fráhvarfsmeðferðir - mikið um sjúklinga á heroíni hér, á methadone sem fráhvarfsmeðferð. Svona sjúklinga sá maður varla heima.
Svo er ýmislegt öðruvísi hér, hér eru allir sykursýkisjúklingar settir á insúlín við innlögn og po meðferð stöðvuð á meðan. Hér hef ég enn ekki séð neinn fá gentamicin! - þeir virðast bara alveg hættir að nota það, sömuleiðis er digoxin afar lítið notað.

Jæja, þetta endaði kannski á því að verða hálfboring læknisfræðileg upptalning - get sagt ykkur svona í lokin að ég er á súperteymi þennan mánuðinn á almennri lyflæknadeild. Co-interninn minn er vel lesinn Grikki frá Krít, deildarlæknirinn svakaklár stelpa og sérfræðingurinn er ung kona, nýlega komin hingað til BMC og ótrúlega áhugasöm um að kenna okkur. Svo við hendumst um ganga spítalans, súperefficient og höfum því nægan tíma til að lesa og rökræða. Sérfræðingurinn raðar upp sjúklingum og leyfir okkur að skoða og giska hvað sé að og fer daglega yfir efni sem við stöndum ekki nógu klár á - þetta er by far besti mánuður ársins!

4.4.09

Rólegheit

Jæja, kominn tími á að hefja aftur bloggfærslur eftir hlé síðastliðins mánaðar!

Ég hef áttað mig á því að það hefur tekið mig svona eins og eina meðgöngu að aðlagast USAísku samfélagi. Ég var algjörlega á útopnu hérna fyrstu mánuðina - fara allt sem ég hugsast gat, út að borða, drekka, djamma, djúsa - það var alltaf eitthvað í gangi! Ég held það hafi verið stórborgarlífið sem hafði þessi áhrif á mig, manni fannst allt svo brjálæðislega frábært :)
Og ég stimplaði mig heldur betur inn í hópinn hér á BMC - SíSí léttgeggjaða, alltaf að gera eitthvað kreisí! Held ég hafi nú samt toppað allt með spilavítisferðinni minni... það var nefnilega þannig að eitt fimmtudagskvöld í október vorum við að drekka bjór, nokkur í prógramminu og 4 seniorar höfðu ákveðið að fara í spilavíti í Connecticut (þau eru nefnilega bönnuð í Massachusetts) og ég ákvað að skella mér bara með! 2 tíma bíltúr fram og tilbaka, lagt af stað seint um kvöld og komið tilbaka um kl. 5. Og ég svo beint í vinnu kl. 7! Spilavítisferðin mín í New Orleans með Gísla Engilbert og Davíð Þór var mér vel minnistæð því þar tókst mér að vinna 100 USD en hér fór það akkúrat á öfugan veg :(
Aníhú - skemmti mér samt mjög vel!

En nú hef ég róast... í alvöru! Farin að njóta þess betur að vera í vinnunni, lesa læknisfræði og bara almennt að njóta lífsins án þess að vera á einhverju endalausu djammi. Og það er yndislegt! :)
Hef komist að því að prógrammið hér er stórkostlegt - er að vinna með afskaplega góðum hóp og allir forsvarsmenn alveg yndislegir. Og nú er vorið komið og ég farin að hlakka til ævintýra sumarsins :)
...og ætla reyndar út að djamma og djúsa í kvöld - ehhemm ;)

Kvöldmatur á pallinum hjá Ólöfu

Kvöldmatur á pallinum hjá Ólöfu

Þorgeir, Hlynur, Janus og Barbara í heimsókn

Þorgeir, Hlynur, Janus og Barbara í heimsókn