28.2.10

Blogg, blogg, blogg

Tími til kominn að taka púlsinn á dvöl minni hér í USA.
2. árið er nú meira en hálfnað og mér finnst tíminn fljúga áfram - raunar alltof hratt. Býst við því að þetta sé svona þegar maður hefur gaman af lífinu og tilverunni :=)
Það var nóg um að vera í haust - fékk fullt af góðum gestum til mín. Meðal annars Svava systir og Binni kærastinn hennar í október (sem btw trúlofuðu sig um síðustu helgi :), saumaklúbburinn kíkti á mig í nóvember, fékk góða lækna í heimsókn frá Íslandi og kíkti á gay senuna í New York með MJ. Svo var toppurinn á haustinu náttúrulega 30 ára afmælið 1. des! Já, ég ákvað að taka afmælið með trompi - það var sannkallað afmælisþema hálft árið þar sem ég kom mér í besta form sem ég hef nokkurn tíma verið í, dressaði mig upp og fékk mér nýja klippingu - sannkallað makeover! Og svo var boðið í partý, um 30 manns sem mættu gíraðir í hákarl, brennivín og ýmsar aðrar veitingar. Hélt upp á það með vinkonu minni hér í prógramminu sem varð 30 ára 4. des svo það hentaði vel. Og fólk skemmti sér alveg konunglega og kláraði brennivínið (annað árið í röð sem brennivínið klárast) og hákarlinn rétt kláraðist (með hjálp góðra Íslendinga). Og svo var farið upp í Cambridge að dansa - hvað annað!
Svo fékk ég 2 vikna jólafrí og eyddi jólunum með fjölskyldunni á Íslandi sem var náttúrulega alveg yndislegt. Skata, hamborgarahryggur, sveppasúpan hennar ömmu og svínakjöt - algjört sælgæti! Kom svo aftur hingað til Boston fyrir gamlársdag og fagnaði með fólkinu heima á miðnætti með því að horfa á flugeldasýningu í Boston Common kl. 7 PM, borðaði svo nautasteik í góðra Íslendinga hópi og endaði loks á pöbb hér í grenndinni með vinum úr prógramminu þar sem skálað var í kampavíni á miðnætti. Verð samt að segja að nýja árinu er hvergi jafnvel fagnað og heima á Íslandi. Það er bara svo hátíðlegt að halda í okkar hefðir - matur með familíunni, skaupið, flugeldar og svo partý. Þetta barasta hafa útlendingar ekki!
Nýja árið hefur svo verið gott, nú er ég komin á fullt í oncologíu pælingar og er að skoða prógrömm út um öll Bandaríkin. Svo það er mikið um ferðalög þetta vor.
Svo gengur vel í prógramminu, er einmitt á göngudeild núna - 4 vikna rotation - og verð að segja að ég kann alltaf betur og betur við mig á göngudeildinni. Hér virkum við sem heimilislæknar fyrir fólk sem við fylgjum eftir í göngudeild. Hef kynnst ýmsu þar, það er m.a. ótrúlegt að sjá hversu margir hafa misst vinnuna síðan kreppan skall á. Það er daglegt brauð að spyrja fólk hér að því hvort það eigi peninga fyrir mat, þak yfir höfuðið, hvort það sé í fíkniefnaneyslu og hvort það eigi einhvern að... og þá skiptir einhvern veginn minna máli hvort HbA1c sé 7 eða 8 eða hvort LDL sé innan targets. Ég veit alla vegana að þessara spurninga spurði maður ekki heima en hér er þetta oftar en ekki aðalumræðuefnið. Svo er ég með marga sjúklinga frá Haití og það eru nú meiri hörmungarnar sem sumir ganga í gegnum þar. Sumir tala enga ensku og hafa ekki getað haft upp á ættingjum sínum, aðrir mæta ekki í bókaða tíma (hver veit hvar það fólk er niðursett) og svo eru margir sem eiga ættingja sem eiga ekki þak yfir höfuðið þarna niður frá. 1,5 milljónir manna eru heimilislaus, 200.000 manns látnir og annað eins stórslasað. BMC er með hjálparhóp þar sem fólk hittist einu sinni í viku og er aðstoðað við að hafa uppi á ættingjum sínum o.s.frv. Einhvern veginn breyta þessir hlutir viðhorfi manns til annarra hluta í heiminum, m.a. kreppunni á Íslandi...
En það eru sem betur fer líka jákvæðir hlutir sem gerast á göngudeildinni, t.d. parið frá Kenya sem kom til mín brosandi út að eyrum um daginn því þau höfðu verið aðskilin í 5 ár en hún nýkomin með dvalarleyfi og flutt til USA. Eða stelpan sem hafði lést um 15 kg frá því ég sá hana fyrir ári með því að hætta að borða snakk og gos! Eða 28 ára heróínfíkillinn sem ég kom inn á spítala síðasta sumar með bullandi enterococcus endocarditis og mitrallokuleka sem gengur nú vel með á suboxone.
Annars hefur febrúarmánuður verið viðburðarríkur, þar má m.a. nefna ferð til Íslands, þorrablót í New York og nýleg ferð til Chicago sem er nú alveg stórkostleg borg - iðandi af mannlífi!
Wellsí, hef þetta ekki lengra í bili.

2 ummæli:

Dídí Amma sagði...

Sæl Sigurdís mín,
gaman að heyra að þú njótir lífsins og vonandi gengur vel í öllum prógram-viðtölunum sem þú ert að mæta í víðsvegar um BNA um þessar mundir.
Biðjum kærlega að heilsa þér,
Dídí Amma og Jóhann. :)

SíSí sagði...

Takk fyrir það - gaman að fá kveðju frá Háaleitisbrautinni :)

Kvöldmatur á pallinum hjá Ólöfu

Kvöldmatur á pallinum hjá Ólöfu

Þorgeir, Hlynur, Janus og Barbara í heimsókn

Þorgeir, Hlynur, Janus og Barbara í heimsókn