14.8.08

Er til eitthvað betra en Mint Chocolate Chip ís?!?

Sit og gæði mér á gómsætum pönnsum með jarðaberjum, bananabitum og Mint Chocolate Chip ís frá Edy´s (sem er einn besti ís sem ég hef smakkað!) og sötra kaffi... mmmm.... og við svona aðstæður er upplagt að blogga! Var á vakt á gjörgæslunni í nótt og náði að sofa frá kl. 23 - 07 í morgun, djæs - svaf meira á vaktinni heldur en ég hefði gert hérna heima! Labbaði reyndar einn rúnt kl. 04 og kíkti á hjúkkurnar, bara svona til að vera viss um að píptækið mitt væri örugglega virkt og já, það virkaði en það var bara ofurrólegt. Hjúkkurnar á gjörgæslunni eru svaka töffarar og hafa mikinn áhuga á Íslandi. Það virðist einhvern veginn vera almenn vitneskja að Ísland sé "inn" túrista-staður núna. Svo ég hef gert mitt besta í landkynningu og mætti með þrista á svæðið um daginn. Fólk var að vísu svolítið hikandi þegar það heyrði um lakkrísinn - USA er nefnilega ekki mikið lakkrís-land, hér er lakkrís harður og óspennandi. En flestir lögðu nú í þristana og líkaði vel -- ég ætla að fylgja þessu vel eftir með apolló-lakkrís á morgun :) Það þyrfti nú eiginlega að gera meira út á útflutning á íslensku sælgæti, yrði örugglega rjúkandi sökssess!

Verð að fá að tjá mig um eitt, ja eða tvö spítalamál sem mér finnst frekar óskiljanleg.
1) HIV-test - hér þurfa sjúklingar sjálfir að samþykkja skriflega HIV prófun. Sem er auðvitað gott og blessað en ef sjúklingar liggja lífshættulega veikir, meðvitundarlausir í öndunarvél með sýkingu af óþekktum uppruna og lág hvít blóðkorn þá getur læknirinn ekki ákveðið að keyra HIV próf og ættingjarnir mega ekki samþykkja fyrir hönd sjúklingsins. Neeeeiiiii, það verður að bíða og vona að sjúklingurinn vakni þó svo það væri klárlega í hans hag að vita hvort hann sé HIV smitaður svo hægt sé að gera sér betur grein fyrir hvað um sé að ræða. Mér finnst þetta frekar óskiljanlegt.

2) Réttur ættingja - hér útnefnir fólk svokallaðan "health care proxy" sem á að taka allar ákvarðanir fyrir hönd þess ef það veikist alvarlega. Og réttur þessara proxy-einstaklinga er mikill. Ef t.d. 80 ára gömul kona með alzheimer til 10 ára kemur inn með lífshættulega sýkingu, þarf 3 pressora, öndunarvél, er í fulminant sepsis með DIC - sem sagt haldið á lífi með vélum og er miklu nær dauða en lífi - þá getur læknirinn ekki tekið þá ákvörðun sem honum finnst skynsamlegust (sem væri í þessu tilfelli klárlega að leyfa aumingja konunni að skilja við) heldur getur ættinginn sagt, "gerið hvað sem er til að halda lífi í henni". Og ef það væri ekki gert, hvað þá? Jú, þá er kært! Annað dæmi - 85 ára karlmaður kemur inn með basilar artery thrombosu - sem sagt drep í hálfum heilanum út af blóðtappa sem stíflaði eina af þremur aðalblóðæðum til heilans - alveg klárt að hann eigi aldrei eftir að vakna. Ættingjarnir geta krafist þess að hann sé hafður á öndunarvél og þannig haldið á lífi, fluttur á endurhæfingarheimili og þar gæti þessi maður lifað mánuði og ár, algjörlega út úr heiminum...
Úff, þetta er frekar heavy blogg hjá mér í dag en ég varð aðeins að fá að deila þessu - þetta er öðruvísi heima, auðvitað er hlustað á ættingjana sem miðla óskum eða hugsanlegum óskum sjúklingsins en læknirinn ber alltaf ábyrgðina á lokaákvörðuninni, hún á ekki að hvíla á herðum ættingjanna og í sumum tilfellum er það sjúklingnum fyrir bestu að leyfa honum að fara, hvort sem ættingjarnir gera sér grein fyrir því eða ekki.


Jæja, að allt öðru. Það er allt að gerast hjá mér þessa dagana - ég stend í flutningum, er að fara á evrópska hjartaþingið í Munchen og fæ familíuna mína í heimsókn fyrstu helgina í september! Sem sagt skemmtilegur tími framundan! Það verður náttúrulega frábært að flytja nær spítalanum og miðbænum. Íbúðin á Shawmut Avenue er svakakósý - lítil eins og allar miðbæjaríbúðir en kósý með litlum palli og fullt af blómum - verð að birta myndir við tækifæri. Fór einmitt að versla hitt og þetta inn í íbúðina í dag og hér gengur allt út á það að spara pláss. Allar hirslur og þess háttar er hannað á þann veginn að það taki sem minnst pláss. Og hvað er í gangi með þessa "resealable" poka hérna! Allt matarkyns sem maður kaupir er í pokum með zipper - ostur, skinka, grænmeti - alveg þvílíkt notendavænt! Það gæti einhver grætt mikið á "resealable bag" hugmyndinni heima! Hmmm.... já þessir pokar hafa ekkert með flutninginn að gera - varð bara að skella þessu hérna með!

Svo hlakka ég mikið til að fara á evrópska hjartaþingið. Fékk samþykkt veggspjald á þingið sem snýr að hjartaverkefninu mínu heima - fékk þessar upplýsingar í apríl - stjórnendur prógrammsins hérna gátu samt ekki ákveðið sig fyrr en seinustu dagana í júlí hvort þeir gætu séð af mér í 4 daga eða ekki.... já, þeir komust loks að því að ég væri ekki alveg ómissanleg! Svo einhverjir af mínum co-internum munu dekka mig og ég þarf að borga þeim tilbaka m.þ.a. vinna fyrir þá einhvern tímann þegar ég er í fríi... jamms, njótið þess læknar, að hafa námsleyfin heima - þau fyrirfinnast ekki hér! :)

Wells, hef ekki meira í bili - kisses and knuses heim!

Engin ummæli:

Kvöldmatur á pallinum hjá Ólöfu

Kvöldmatur á pallinum hjá Ólöfu

Þorgeir, Hlynur, Janus og Barbara í heimsókn

Þorgeir, Hlynur, Janus og Barbara í heimsókn