25.1.09

Þvílík vika!

Það er eiginlega ekki hægt annað en blogga í lok þessarar viku!
Stórkostleg vika - núna hef ég fylgst með fréttum daglega, USAískum og íslenskum...

Barack Obama tók við forsetaembættinu á þriðjudag - það var dagur sem rennur mér seint úr minnum. Kl. 12 á hádegi sór hann eiðinn, að vísu hálfklaufalega þar sem chief of justice fór ekki rétt með hann, en eiðinn sór hann engu að síður :) Og hélt svo stórkostlega ræðu fyrir framan 2.000.000 manna í Washington. Ég sat í salnum á hermannaspítalanum með 30 manns og fólk hlustaði af athygli - með bros á vör! Og svo horfðum við á George Bush og frú fljúga burt úr Hvíta húsinu með þyrlu - já, loksins loksins lauk valdatíð Bush og Bandaríkjamenn eru fegnir og horfa vonbetri til framtíðar. Obama hóf svo störf á miðvikudaginn og hefur á þessum 5 dögum gert marga góða hluti - dæmi: 
- ætlar að loka Guantanamo fangabúðunum
- setti hömlur á lobbyisma á þinginu
- frysti laun embættismanna sem þéna meira en 100.000 USD á ári
- skipaði sendinefnd til að miðla friði í Ísrael/Palestínu
- ógilti lög sem bönnuðu stofnunum sem studdu fóstureyðingar að fá public funding

Og hann ætlar að standa við aðskilnað ríkis og kirkju - eitthvað sem er afskaplega mikilvægt hér í USA því hér þvælist kristin trú hreinlega of oft fyrir raunverulegum, mikilvægum málefnum. Las til dæmis í New York Times um daginn að í Texas debatera menn um skólabækur.  Debatinn snýst um það hvort skólabækur eigi að kenna þróunarkenningu Darwins eða hvort þær eigi að innihalda orð efasemdarmanna (þ.e. kristinna manna) um ýmis göt í kenningunni og benda þá frekar á texta Biblíunnar um upphaf lífs á jörðu...  já, einmitt! Af því að texti Biblíunnar inniheldur náttúrulega engin göt! Alveg merkilegt - hugsið ykkur ef þetta fólk myndi nú einbeita sér að einhverju sem skiptir heiminn raunverulegu máli eins og beislun vetnis sem orkugjafa... eða eitthvað álíka - þá værum við í góðum málum.

Annars sá ég að Meaghan vinkona kommenteraði á facebook á þriðjudag að hún væri loks, eftir langan tíma, stolt af því að vera Bandaríkjamaður!

Og í dag er ég stolt af því að vera Íslendingur! Loksins loksins virðast stjórnvöld hafa vaknað upp af þungum Þyrnirósarsvefni og ætla að taka til í svínastíunni. Og það er þjóðinni að þakka! Þjóðinni sem reyndi að mótmæla friðsamlega hvern einasta laugardag frá því í október án þess að nokkuð gerðist... og það var ekki fyrr en fólk fór að berja í potta og glugga alþingishússins sem hlutir fóru loks að gerast! Auðvitað var óskemmtilegt að sjá fólk berja í hjálma lögreglumanna, gera aðsúg að veikum forsætisráðherra og kveikja í bekkjum. En það má ekki gera það að aðalatriðum í þessu - aðalatriðið er í mínum huga kristaltært. Þjóðin verður og er að þjappa sér saman, stjórnvöld verða að taka viðeigandi og margumbeðin skref í átt að þjóðarsátt svo uppbyggingarstarfið megi hefjast. Og í því verða allir að taka þátt.
Björgvin Sigurðsson ríður á vaðið og hans verður örugglega minnst fyrir það - snilldarmúv hjá manninum... við Íslendingar eigum nefnilega gott með að fyrirgefa en til þess að fyrirgefa þá verður fólk fyrst að viðurkenna mistök, biðjast afsökunar og axla ábyrgð  (við eigum meira að segja svo auðvelt með að fyrirgefa að stundum þarf fólk ekki einu sinni að biðjast afsökunar - sjáið til dæmis hvernig Vestmanneyingar fyrirgáfu Árna Johnsen og kusu hann aftur inn á þing!). 
Já - nú eru spennandi tímar í Bandaríkjunum og á Íslandi - og ég sakna þess svo sannarlega að geta ekki verið heima til að leggja hönd á plóg!

Að lokum vil ég benda ykkur á blogg Láru Hönnu http://larahanna.blog.is/blog/larahanna/
Þá sérstaklega færslu hennar frá 25. jan sem ber nafnið "Enn öflugri mótmæli" - stórkostlegur texti!

2 ummæli:

Ólöf Viktorsdóttir sagði...

það var því vel viðeigandi að enda þessa hápólitísku viku á að fara á Nixon/Frost í bíó. Gott múv hjá okkur! Takk :)

SíSí sagði...

True - góð mynd!

Kvöldmatur á pallinum hjá Ólöfu

Kvöldmatur á pallinum hjá Ólöfu

Þorgeir, Hlynur, Janus og Barbara í heimsókn

Þorgeir, Hlynur, Janus og Barbara í heimsókn