26.1.09

Sandkassaleikur

Ó man.... þetta blogg mitt átti aldrei að fjalla um íslensk stjórnmál en nú virðist það einhvern veginn óhjákvæmilegt... kannski af því ég er hér í USA og hef fáa til ræða við sem hafa actually áhuga á íslenskum stjórnmálum... eða kannski af því ég ER hér í usa, þá einmitt hef ég enn krafta og þrek til að ræða íslensk stjórnmál!?!
Aníhú - það komu fleiri en einn og tveir upp að mér í dag og spurðu hvað væri eiginlega að gerast á Íslandi? Og ég gat barasta ekki alveg svarað þeim...
Mér hefur alltaf reynst vel að flokka og númera hluti - ætla að gera tilraun með pælingar mínar í dag sem virðast reyndar ekki vel flokkaðar í mínum huga, well let´s try:

1) Ok - stjórnin fallin... það sem við vildum vissulega, fólk varð að bera ábyrgð á hruni efnahagslífsins en bíddu.... stjórnin fallin, bar einhver ábyrgð? Jú Björgvin G., hann bað þjóðina afsökunar, lét Fjármálaeftirlitið fjúka - mjög gott mál. En hvað með hina? 

2) Sandkassaleikur flokkanna - ásakanir ganga á víxl. Gísli Marteinn segir að innanflokksátök Samfylkingar hafi gert út um ríkisstjórnarsamstarfið. Ég er ósammála, held að aðgerðarleysi og einlæg valdagræðgi hafi gert út um samstarfið. Sérstaklega af hálfu Sjálfstæðisflokksins - því miður... þar eru nefnilega margir efnilegir einstaklingar sem ég hefði viljað sjá í þjóðstjórn. En Geir var ekki tilbúin til að láta undan, nei... hann var ekki tilbúinn til að láta þann stjórnmálamann sem hefur hlotið mestar vinsældir í könnunum síðustu 2 ára leiða nokkurs konar samstarf...

3) Af hverju ekki þjóðstjórn? Eru þetta ekki erfiðustu tímar sem þjóðin hefur staðið fyrir síðan Sturlungaöld leið undir lok?!? Af hverju geta menn ekki sameinað krafta sína, sett fram sitt bestasta og heiðarlegasta fólk til að sitja í þjóðstjórn? Af hverju geta flokkarnir ekki lagt niður sínar stríðsaxir og unnið að sameiginlegu markmiði - reyna að bjarga því sem bjargað verður á þessu landi, bjarga heimilunum, fyrirtækjunum, lífeyrissjóðunum... er það til of mikils mælst? En nei, Geir segir:
Þjóðstjórn er besti möguleikinn í stöðunni að mati Geirs H, Haarde formanns Sjálfstæðisflokksins en kemur þó vart til greina nema Sjálfstæðisflokkurinn fái Forsætisráðuneytið.
Af hverju í ósköpunum ætti Sjálfstæðisflokkurinn að leiða Forsætisráðuneyti frekar en einhver annar.  Flokkurinn gerði út um mögulega þjóðstjórn því miður - á tímum þar sem allir ættu að einbeita sér að því að slökkva í eldum þjóðarbúsins og bjarga því sem bjargað verður frekar en að vera í sandkassaleik! Ótrúlegt! Ég sem hélt að þessi dagur gæti ekki orðið annað en góður - að menn og konur legðu niður sverðin, tækjust í hendur og ynnu fyrir þjóðina, fyrir landið, sameiginlega að einu markmiði - að bjarga því sem bjargað verður - áður en það verður of seint!

4) Alþingiskosningar í maí - sorrí, það er barasta fáránlegt! Að flokkarnir 5 fari að einbeita sér að prófkjörum og kosningum  frekar en því sem máli skiptir. Hver veit su sem hvað hver flokkur stendur fyrir í augnablikinu - mér finnst eins og hvirfilbylur hafi gengið yfir pólitíska grundu landsins og hrist upp í öllum, svo mikið að ég sé ekki lengur að það skipti máli hvort einhver sé Framsóknarmaður eða Samfylkingarkona - ég meina, erum við ekki öll Íslendingar? Og viljum við ekki berjast fyrir tilveru okkar og komandi kynslóða?!? Er þetta ekki einmitt tíminn til að taka niður bleiku, pólitísku sólgleraugun og sjá heiminn í réttum lit. Er þetta ekki tíminn til að sameina þjóðina - það er reyndar mjög sennilegt að þjóðin sé löngu sameinuð en ekki stjórnmálamenn - og akkúrat núna reyna þeir að sundra þjóðinni í fylkingar, í Framsóknarflokk, Sjálfstæðisflokk, Samfylkingu, Vinstri-græna og Frjálslynda - já og svo má ekki gleyma "mótmælendum" sem hafa auðvitað bara eitt í huga, jú þeir ætla FRAM í næstu þingkosningum... nei, krakkar, nú verðum við barasta að fullorðnast svolítið, hratt!
Við berum öll ábyrgð á því að láta ekki glepjast aftur af flokkadráttum - að einblína á aðalatriðin, fólkið í landinu, náttúruauðlindir okkar, börnin, samheldnina og byrja upp á nýtt - læra af síðustu 10 árum okkar sögu, ýta þeim í burtu og móta framtíðarsýn okkar aftur!

Vá,  nú hef ég aldeilis látið hugann reika - veit ekki hvort númeringin hjálpaði eitthvað til, sennilega ekki. En ég er enn stolt af Íslendingum, nú megum við barasta ekki leyfa "stjórnmálaöflum" að eyðileggja þetta fyrir okkur. Þetta mál er svo miklu stærra en Geir vs. Solla eða Vinstri-grænir vs. Sjálfstæðisflokkurinn...

25.1.09

Þvílík vika!

Það er eiginlega ekki hægt annað en blogga í lok þessarar viku!
Stórkostleg vika - núna hef ég fylgst með fréttum daglega, USAískum og íslenskum...

Barack Obama tók við forsetaembættinu á þriðjudag - það var dagur sem rennur mér seint úr minnum. Kl. 12 á hádegi sór hann eiðinn, að vísu hálfklaufalega þar sem chief of justice fór ekki rétt með hann, en eiðinn sór hann engu að síður :) Og hélt svo stórkostlega ræðu fyrir framan 2.000.000 manna í Washington. Ég sat í salnum á hermannaspítalanum með 30 manns og fólk hlustaði af athygli - með bros á vör! Og svo horfðum við á George Bush og frú fljúga burt úr Hvíta húsinu með þyrlu - já, loksins loksins lauk valdatíð Bush og Bandaríkjamenn eru fegnir og horfa vonbetri til framtíðar. Obama hóf svo störf á miðvikudaginn og hefur á þessum 5 dögum gert marga góða hluti - dæmi: 
- ætlar að loka Guantanamo fangabúðunum
- setti hömlur á lobbyisma á þinginu
- frysti laun embættismanna sem þéna meira en 100.000 USD á ári
- skipaði sendinefnd til að miðla friði í Ísrael/Palestínu
- ógilti lög sem bönnuðu stofnunum sem studdu fóstureyðingar að fá public funding

Og hann ætlar að standa við aðskilnað ríkis og kirkju - eitthvað sem er afskaplega mikilvægt hér í USA því hér þvælist kristin trú hreinlega of oft fyrir raunverulegum, mikilvægum málefnum. Las til dæmis í New York Times um daginn að í Texas debatera menn um skólabækur.  Debatinn snýst um það hvort skólabækur eigi að kenna þróunarkenningu Darwins eða hvort þær eigi að innihalda orð efasemdarmanna (þ.e. kristinna manna) um ýmis göt í kenningunni og benda þá frekar á texta Biblíunnar um upphaf lífs á jörðu...  já, einmitt! Af því að texti Biblíunnar inniheldur náttúrulega engin göt! Alveg merkilegt - hugsið ykkur ef þetta fólk myndi nú einbeita sér að einhverju sem skiptir heiminn raunverulegu máli eins og beislun vetnis sem orkugjafa... eða eitthvað álíka - þá værum við í góðum málum.

Annars sá ég að Meaghan vinkona kommenteraði á facebook á þriðjudag að hún væri loks, eftir langan tíma, stolt af því að vera Bandaríkjamaður!

Og í dag er ég stolt af því að vera Íslendingur! Loksins loksins virðast stjórnvöld hafa vaknað upp af þungum Þyrnirósarsvefni og ætla að taka til í svínastíunni. Og það er þjóðinni að þakka! Þjóðinni sem reyndi að mótmæla friðsamlega hvern einasta laugardag frá því í október án þess að nokkuð gerðist... og það var ekki fyrr en fólk fór að berja í potta og glugga alþingishússins sem hlutir fóru loks að gerast! Auðvitað var óskemmtilegt að sjá fólk berja í hjálma lögreglumanna, gera aðsúg að veikum forsætisráðherra og kveikja í bekkjum. En það má ekki gera það að aðalatriðum í þessu - aðalatriðið er í mínum huga kristaltært. Þjóðin verður og er að þjappa sér saman, stjórnvöld verða að taka viðeigandi og margumbeðin skref í átt að þjóðarsátt svo uppbyggingarstarfið megi hefjast. Og í því verða allir að taka þátt.
Björgvin Sigurðsson ríður á vaðið og hans verður örugglega minnst fyrir það - snilldarmúv hjá manninum... við Íslendingar eigum nefnilega gott með að fyrirgefa en til þess að fyrirgefa þá verður fólk fyrst að viðurkenna mistök, biðjast afsökunar og axla ábyrgð  (við eigum meira að segja svo auðvelt með að fyrirgefa að stundum þarf fólk ekki einu sinni að biðjast afsökunar - sjáið til dæmis hvernig Vestmanneyingar fyrirgáfu Árna Johnsen og kusu hann aftur inn á þing!). 
Já - nú eru spennandi tímar í Bandaríkjunum og á Íslandi - og ég sakna þess svo sannarlega að geta ekki verið heima til að leggja hönd á plóg!

Að lokum vil ég benda ykkur á blogg Láru Hönnu http://larahanna.blog.is/blog/larahanna/
Þá sérstaklega færslu hennar frá 25. jan sem ber nafnið "Enn öflugri mótmæli" - stórkostlegur texti!

19.1.09

I have a dream

Í dag er frídagur í Bandaríkjunum - Martin Luther King dagurinn sem er haldinn 3. mánudag í Janúar í kringum fæðingardag King. Og nú eru spennandi tímar í USA. Barack Obama tekur við forsetaembættinu á morgun, 20. janúar - inauguration day!
Búist er við 2.000.000 manna að fylgjast með í Washington DC klukkan 12 á hádegi á morgun þegar Barack Obama verður 44. forseti Bandaríkjanna - svo sannarlega sögulegur atburður, ekki síður en ræða MLK árið 1963.

Heimurinn fagnar, Bostonbúar fagna og ég fagna - loksins, loksins komast Bandaríkin á betri braut, beinni braut og geta vonandi endurheimt sess sinn!

Já, draumur Martin Luther King virðist hafa ræst :)

14.1.09

Kominn tími á blogg um efnahagsástandið...

Jæja, get ekki annað en bloggað aðeins um íslensku kreppuna. Rakst ég á blogg Sigmundar Gunnlaugssonar í dag, sjá http://sigmundurdavid.eyjan.is/ Hann ætlar víst að gefa kost á sér í formannsslaginn í Framsóknarflokknum og þykir mér það gott. Við þurfum nýtt blóð, fólk sem hefur vit á viðskiptum og hagfræði. Ég held það skipti ekki lengur máli í hvaða flokki fólk er, þetta virðist allt af sama meiðinu. Áhugavert að sjá bloggið hans um 500 milljarðana... hann hefur jú barist mikið gegn því að ríkisstjórnin skyldi steypa okkur í þessar skuldir. En vá hvað þetta er rétt hjá honum - hvernig á þjóðin nokkurn tímann að geta greitt niður 500 milljarða króna skuld! Eignir Landsbankans munu ekki nærri duga til og eins og hann bendir réttilega á eru örugglega margir aðrir kröfuhafar sem eiga eftir að lögsækja. Hvernig datt ríkisstjórninni í hug að samþykkja að greiða þetta allt! Hvers konar sérfræðinga höfðu þeir samráð við. Og hvernig er hægt að taka slíka ákvörðun án þess að bera þetta undir þingið?!? Er þetta lýðræði? Íslenskt lýðræði kannski?
Það er hrikalegt að heyra fréttir um niðurskurð í heilbrigðiskerfinu og á öðrum stöðum í þjóðfélaginu og þetta er alveg örugglega bara byrjunin. Úff - ég svekki mig svo mikið á þessu að ég er farin að forðast að lesa fréttir að heiman nema kannski svona 3. hvern dag!

6.1.09

Star Trek

Jessss... ég hef hafið fyrra Star Trek áhorf aftur!

Þarfnast kannski smáútskýringar fyrir þá sem þekkja mig minna. Ég er nefnilega forfallinn Star Trek áhangandi og hef verið frá því ég var 10 ára og horfði á Next Generation í Danmörku. Ég og Svava systir höfum verið í þessu saman - The Next Generation, Deep Space Nine, Voyager - allt eðal seríur. Fílaði reyndar aldrei gömlu þættina, þeir voru einhvern veginn of hallærislegir...
En nú er ég að horfa á Voyager, seríu 5. Það er nefnilega þannig að ég á ekkert sjónvarp svo ég horfi bara á alls konar þætti í tölvunni. Það er fínt. Hrikalegt að horfa á sjónvarp hér í USA, alltof mikið af auglýsingum, algjör tímaþjófur.

Kvöldmatur á pallinum hjá Ólöfu

Kvöldmatur á pallinum hjá Ólöfu

Þorgeir, Hlynur, Janus og Barbara í heimsókn

Þorgeir, Hlynur, Janus og Barbara í heimsókn